Talstudío Ásthildar

Snemmtæk íhlutun og bækurnar um Bínu
BínaBækurnar Bína bálreiða og Bína fer í leikskóla byggja á langri reynslu höfundar af því að að styrkja boðskiptafærni og efla málþroska hjá ungum börnum. Bína er reið af því að hún veit ekki hvernig hún á að haga sér. Stundum kastar hún sér í gólfið og öskrar. Í bókunum lærir hún ýmislegt gagnlegt sem tengist snemmtækri íhlutun og lærir undirstöðuþætti boðskipta Bækurnar eru myndskreyttar af Bjarna Þór Bjarnasyni myndlistarmanni. Honum tekst að glæða persónurnar í bókunum einstöku lífi þannig að auðvelt er að láta sér þykja vænt um þær.

Hegðun og boðskipti eru nátengd. Rannsóknir sýna að oft veldur málþroskaröskun því að að hluta til að börn þróa með sér hegðunarerfiðleika. Þetta er reynsla höfundar í vinnu með ungum börnum. Þessi börn hlusta illa og skilja ekki til hvers er ætlast af þeim. Þeim líður þar af leiðandi illa og bregðast við með óæskilegri hegðun. Oft eru þessi börn misskilin og talað um að þau séu óþekk eða ómannblendin vegna þess að þau geta líka átt það til að draga sig inn í eigin skel og erfitt getur verið að ná sambandi við þau. Einnig geta þau átt erfitt með að samlagast öðrum börnum.

Í bókinni Bínu bálreiðu er unnið með undirstöðuþætti boðskipta og byggt á hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun, þ.e. að grípa nógu snemma inn í til að styrkja boðskiptafærni hjá ungum börnum. Bína lendir í erfiðleikum og er reið en í bókinni er tekist á við vandann og boðið upp á lausnir með því að gefa henni ráð sem stuðla að auknum skilningi, meiri orðaforða og betri boðskiptafærni. Þetta verður síðan til þess að með aukinni færni líður Bínu betur, hegðunin batnar og hún hættir að vera alltaf bálreið en verður glöð í staðinn. Unnið er með sjónrænar vísbendingar, orðaforða, ætlun og að gera til skiptis. Jafnframt lærir Bína sameinaða athygli, hljóðamyndun og stafi og endurtekningu. Einnig er lögð áhersla á að kenna Bínu að nota viðeigandi boðskipti í daglegum aðstæðum og þess gætt að þörf skapist fyrir þau.

Það sem Bína lærir í bókinni Bína bálreiða er að sitja kyrr, hlusta, passa hendur, bíða, setja sig í spor annarra, gera til skiptis, endurtaka og muna. Einnig lærir hún ný orð, hermir eftir hljóðum og lærir að þekkja stafinn sinn ásamt því að finna orð sem að byrja á sama staf og hún á. Í bókinni Bína fer í leikskóla kvíðir hún fyrir að byrja í leikskólanum. Hún er ekki viss um að mamma komi aftur að sækja hana og hún veit ekki alltaf hvernig hún á að hegða sér innan um hina krakkana. Í leikskólanum lærir hún margt skemmtilegt, til dæmis hvað leiktækin heita, hvernig hún eignast vini, lærir að biðja um hjálp ásamt því að læra mörg ný orð. Fjöldi dýra koma Bínu til hjálpar og bækurnar byggja á upprifjun og endurtekningu. Ung börn þurfa og hafa mjög gaman af því að endurtaka það sem að þeim finnst skemmtilegt. Þetta kemur t.d. fram þegar þau vilja lesa sömu bókina eða horfa á sama myndbandið aftur og aftur.

Þeir sem vinna með málörvun á leikskólum.geta auðveldlega notað sér hugmyndirnar í bókinni. Kennarar í fyrstu bekkjum grunnskóla hafa einnig bent á að í bókinni er unnið með þætti sem mörg börn í fyrsta bekk hafa ekki tileinkað sér. Bókin hentar einnig vel í vinnu með börnum sem nota óhefðbundnar tjáskiptaleiðir, s.s. „Tákn með tali“ og börnum með einhverfu.

Það er gleðilegt að margir foreldrar hafa haft samband við höfund og lýst ánægju sinni með bækurnar og margir hafa sagt að börn eigi auðvelt með að samsama sig sögupersónunni og það sé oft nóg að segja; Hvernig gerir Bína? Börnin nýta sér þá hugmyndirnar í bókinni til að bæta hegðun sína og í kjölfarið líður þeim betur.